Innlent

Þegar farinn að skrifa handritið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurjón Sighvatsson ætlar að gera mynd eftir bók Yrsu Sigurðardóttur.
Sigurjón Sighvatsson ætlar að gera mynd eftir bók Yrsu Sigurðardóttur.
Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi hefur ráðið Ottó Geir Borg til þess að skrifa handritið að bókinni „Ég man þig" eftir Yrsu Sigurðardóttur. Ottó er þegar byrjaður að skrifa handritið og Sigurjón er vongóður um að tökur geti hafist fljótlega. Hann segir vel koma til greina að taka myndina upp á Hesteyri, þar sem sagan gerist.

Myndin verður tekin upp á íslensku. „Ég á nú von á því að hún verði tekin upp á íslensku, alla vega að stórum hluta til. Það er mikið af myndmáli, ekki endilega svo mikið talað mál í rauninni. Ég geri ráð fyrir því að þetta verði íslensk bíómynd, en hvort það verði einhver önnur tungumál ívafin er svo aftur annað mál," segir Sigurjón í samtali við Vísi.

Sigurjón segist þekkja staðinn þar sem sagan gerist ágætlega. Fyrsta hugsun sé að taka myndina upp þar. „En það eru líka aðrir staðir sem hafa komið til umræðu. Við eigum eftir að taka sumarið í að skoða fleiri staði," segir Sigurjón. Hann er hins vegar ekki farinn að velta fyrir sér leikurum í helstu hlutverk. „Við þurfum aðeins að fá betri heildarmynd á þetta. En það er fullt til af góðum leikurum á Íslandi," segir Sigurjón.

Sigurjón segir erfitt að spá fyrir um það hvenær tökur geti hafist. Það fari allt eftir því hvernig gangi að skrifa handritið. Það sé hins vegar góðs viti að handritshöfundur sé byrjaður að skrifa. „Hann er byrjaður að skrifa, sem er frekar óvenjulegt. Það gerist frekar hratt. Það er kosturinn við það að vinna utan Hollywood. Hlutirnir í Hollywood gerast hægt. Þannig að ég er vongóður um það að hægt sé að gera þetta fljótlega," segir Sigurjón.


Tengdar fréttir

Sigurjón Sighvatsson vill kvikmynda bók Yrsu

Sigurjón Sighvatsson hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn á metsölubók Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig, sem var ein mest selda bók liðins árs og situr nú í efsta sæti Bóksölulistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×