Innlent

Innflytjendum fækkar - Pólverjar enn fjölmennastir

Pólskir karlar voru 40,8% allra karlkyns innflytjenda 1. janúar 2011, eða 5.129 af 12.566.
Pólskir karlar voru 40,8% allra karlkyns innflytjenda 1. janúar 2011, eða 5.129 af 12.566. Mynd úr safni / Vilhelm
Innflytjendur voru 8,1% mannfjölda á Íslandi þann 1. janúar 2011, alls 25.693 manns. Þetta er fækkun frá árinu 2010, þegar innflytjendur voru 8,2% landsmanna og 26.171 alls.

Nokkuð hefur fjölgað í annarri kynslóð innflytjenda á milli áranna 2010 og 2011 eða úr 2.254 í 2.582. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 8,9% af mannfjöldanum hinn 1. janúar 2011, sem er það sama og hún var árið 2010. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði lítillega frá 2010 til ársins 2011, úr 6% í 6,1% mannfjöldans. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og af foreldrum sem eru líka fæddir erlendis, sem og báðir afar og ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem eru fæddir á Íslandi af foreldrum sem eru báðir innflytjendur. Fólk með erlendan bakgrunn eru þeir sem eru fæddir erlendis af íslensku foreldri eða fæddir á Íslandi og annað foreldrið útlent.

Pólverjar fjölmennastir innflytjenda

Eins og síðustu ár voru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi árið 2011. Alls eru 9.463 einstaklingar upprunnir frá Póllandi eða 36,8% allra innflytjenda. Pólskir karlar voru 40,8% allra karlkyns innflytjenda 1. janúar 2011, eða 5.129 af 12.566. Pólskar konur voru 33% kvenkyns innflytjenda. Næstfjölmennasti hópur innflytjenda fæddist í Litháen, 5,7% en 5,2% innflytjenda fæddust á Filippseyjum.

Konur fjölmennari meðal innflytjenda

Þann 1. janúar 2011 voru konur í meirihluta meðal innflytjenda en frá 2006 hafa karlar verið fjölmennari allt þar til nú. Hinn 1. janúar síðastliðin voru 957 karlar á hverjar 1.000 konur. En þrátt fyrir að konur séu nokkuð fjölmennari almennt meðal innflytjenda er kynjahlutfallið mjög misjafnt eftir því hvaðan innflytjendur eiga uppruna sinn til.

Þannig eru 1.183 karlar á hverjar 1.000 konur meðal innflytjenda frá Póllandi, og 1.144 karlar á 1.000 konur sem eiga uppruna sinn að rekja til Litháen.

En meðal þeirra innflytjenda sem eru frá Filippseyjum að þá eru aftur á móti 488 karlar á hverjar 1.000 konur.

Flestir frá Evrópu Flestir nýrra ríkisborgara árið 2010 voru frá Evrópu, þar af 50 frá Póllandi og 27 frá Serbíu. Næstflestir voru frá Asíu, þar af 67 frá Filippseyjum. Þetta er svipuð skipting og undanfarin ár. Þó er sú breyting að flestir nýir ríkisborgarar höfðu áður filippseyskt ríkisfang, en undanfarin ár hafa pólskir ríkisborgarar verið fjölmennastir.

Erlent ríkisfang

Hinn 1. janúar 2011 voru 21.143 erlendir ríkisborgarar með lögheimili hér á landi eða 6,6% landsmanna. Ári áður nam þessi tala 21.701 (6,8% landsmanna). Það bjuggu hér á landi einstaklingar ,með ríkisfang frá 137 löndum.

Langflestir erlendir ríkisborgarar sem búsettir eru á Íslandi eru með pólskt ríkisfang (9.146), í kjölfar þeirra fylgja Litháar (1.609) og Þjóðverjar (995). Hlutfallslega flestir búa á Suðurnesjum, eða 9,1% suðurnesjamanna og þar á eftir eru 8,7% íbúa Vestfjarða með erlent ríkisfang. Einungis 3,6% íbúa á Norðurlandi eystra eru með erlent ríkisfang og 4,5%íbúa Norðurlands vestra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×