Innlent

Bæjarstjórn skoðar hvort bæjarstjóri eigi að víkja

Ólafur vill að bæjarstjórn víki Ásgerði úr starfi sínu sem bæjarstjóri. Mynd/Samsett mynd Vísis
Ólafur vill að bæjarstjórn víki Ásgerði úr starfi sínu sem bæjarstjóri. Mynd/Samsett mynd Vísis
„Við munum fara yfir málið strax eftir helgina," segir Guðmundur Magnússon, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar, en lögmaður Ólafs Melsted, fyrrum framkvæmdastjóra Tækni- og umhverfissviðs hjá bænum sem hefur verið frá vinnu vegna eineltismáls í rúmt ár, vill að bæjarstjórn víki Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóra Seltjarnaresbæjar, úr starfi sínu sem bæjarstjóri.

Á miðvikudaginn í síðustu viku fékk bæjarstjórn bréf frá lögmanninum þar sem greint var frá þessu. Í því kemur fram að tveir dómskvaddir matsmenn telja að Ásgerður hafi sýnt Ólafi ámælisverða og ótilhlýðilega háttsemi sem stjórnandi.

Ólafur hefur verið frá vinnu vegna eineltisins frá því í janúar á síðasta ári og segir í bréfi lögmanns Ólafs til bæjarstjórnar að í haust hafi hann verið hrakinn úr starfi sínu hjá sveitarfélaginu, „en eins og kunnugt er var það gert með niðurlagningu stöðu hans án endurráðningar."

Í bréfinu segir að bæjarstjórn hafi verið kunnugt um ásakanir Ólafs um einelti á vinnustað frá því í febrúar í fyrra. Þrátt fyrir það hafi ekkert verið aðhafst eða kannað nánar á hverju ásaknir hans séu reistar. Ólafur hafi margoft ítrekað ásakanirnar við bæjarstjórnina en það hafi verið virt að vettugi.

Hann hafi því nauðbeygður farið þess á leit við héraðsdóm að dómkvaddir yrðu hæfir og óvilhallir sálfræðingar til að leggja mat á það hvort hann hafi orðið fyrir einelti af hálfu Ásgerðar, hverjar séu orsakir þess og hvaða afleiðingar slíkt einelti kann að hafa haft í för með sér á heilsu og líðan hans.

Matsmennirnir telja fullsýnt að í fjórum atriðum hafi Ásgerður ótvírætt sýnt Ólafi ámælisverða og ótilhlýðna háttsemi sem stjórnandi og þær breytingar til hins verra á líðan, högum og heilsu Ólafs megi rekja til háttsemi bæjarstjórans.

Í lok bréfsins fer Ólafur fram á það að bæjarstjórn veiti Ásgerði formlega áminningu og þá er þess krafist að bæjarstjórn víki Ásgerði úr starfi sínu sem bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, „sbr. meginreglur um aðgerðir vegna eineltis á vinnustað og fyrrnefnd ákvæði um viðbrögð bæjarstjórnar í eineltisáæltun sveitarfélagsins," segir í bréfinu.

Þá krefst Ólafur að sveitarfélagið bæti sér það tjón sem hann hefur orðið fyrir en hann hefur þurft að greiða allan kostnað sjálfur vegna veikinda sinna.

Þar segir ennfremur að bæjarstjórn sé veittur 20 daga frestur, nánar tiltekið til 28. mars næstkomandi, til að taka afgerandi afstöðu í málinu með það að leiðarljósi að honum verði bætt það tjón sem hann hefur orðið fyrir. „Að öðrum kosti mun umbjóðandi minn (Ólafur innsk. blm.) leita réttar síns fyrir dómstólum." Þá er þess krafist að Ásgerður víki sæti við meðferð þess til að málið hljóti réttláta málsmeðferð.

Guðmundur Magnússon, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar, segir í samtali við Vísi að bæjarstjórn muni fara yfir málið eftir helgi en hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×