Fótbolti

Milan tapaði stigum gegn botnliðinu

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic í grasinu eftir baráttu við leikmenn Bari.
Zlatan Ibrahimovic í grasinu eftir baráttu við leikmenn Bari. Nordic Photos/Getty Images
AC Milan missti af góðu tækifæri til að auka forystu sína á toppi ítölsku deildarinnar í knattspyrnu er liðið gerði 1-1 jafntefli við botnlið Bari á heimavelli í dag.

Heimamenn í Milan voru stálheppnir að ná stigi því Antonio Cassano jafnaði leikinn þegar skammt var eftir af leiknum eftir að Gergely Rudolf hafði komið Bari yfir í fyrri hálfleik.

Milan lék einum leikmanni færri síðasta stundarfjórðunginn eftir að Zlatan Ibrahimovic fékk að líta sitt annað gula spjald og var því sendur í skammarkrókinn. Eftir leikinn er Milan með 62 stig á toppi deildarinnar og er fimm stigum á undan grönnum sínum í Inter sem gerði jafntefli gegn Brecia á föstudag.

Juventus gerði 2-2 jafntefli á útivelli gegn Cesena í gærkvöldi eftir að Alessandro Matri hafði komið liðinu tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik. Juventus er í 7. sæti deildarinnar með 42 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×