Það var gott hljóðið í Björgvini Páli Gústavssyni eftir æfingu landsliðsins í gær. Hann segir að strákarnir þurfi að vera geysilega grimmir í leiknum gegn Þýskalandi á morgun.
"Menn eru hrikalega vel stemmdir. Við erum með andlegt forskot á Þjóðverjana eftir leikinn heima. Það þýðir samt ekkert að slaka á því þeir eru á heimavelli með 11 þúsun áhorfendur á bak við sig," sagði Björgvin en hvernig er andlega hliðin hjá strákunum en Guðmundur þjálfari leggur mikið upp úr því að hún sé í lagi.
"Ég held að það hafi sýnt sig hér á æfingunni að menn eru klárir enda varð allt vitlaust í fótboltanum hérna áðan. Það var mikil keppni í gangi. Klukkan er að verða 11 og menn eru enn ferskir. Fókusinn er í lagi og menn þurfa líka að vera fókuseraðir á morgun."
Björgvin Páll var frábær í leiknum á Íslandi á miðvikudag og liðið þarf á því að halda að hann standi sig vel á morgun líka.
"Mitt djobb er að vera fyrir boltanum og það gekk ágætlega síðast. Þeir munu eflaust stúdera mig fyrir leikinn. Það er alltaf erfitt að spila tvo leiki í röð. Það er andleg barátta. Ég held ég sé að vinna mína vinnu ágætlega í þeim efnum," sagði Björgvin en Þjóðverjar verða enn sterkari á morgun þar sem þeir hafa endurheimt Holger Glandorf.
"Hann hefur reynst okkur erfiður og ekki síst á HM. Það verður gaman að eiga við hann. Það þarf að láta hann hafa fyrir hlutunum. Það verður að berja á þeim og kalla fram geðveikina. Við verðum að gera það enda mikið mótlæti," sagði Björgvin Páll.
Handbolti