Fótbolti

Julio Cesar varði víti á 90. mínútu og bjargaði stigi fyrir Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Caracciolo sést hér eftir að hann brenndi af vítinu í blálokin.
Andrea Caracciolo sést hér eftir að hann brenndi af vítinu í blálokin. Mynd/AP
Brasilíski markvörðurinn Julio Cesar bjargaði stigi fyrir Inter í kvöld þegar hann varði vítaspyrnu á 90. mínútu í 1-1 jafntefli á móti Brescia í ítölsku A-deildinni í fótbolta.

Samuel Eto'o kom Inter í 1-0 á 18. mínútu með sínu 31. fyrsta marki á tímabilinu en Andrea Caracciolo jafnaði metin á 85. mínútu.

Fimm mínútum síðar braut Ivan Cordoba á Eder inn í teig og fékk rautt spjald auk þess að Brescia fékk vítaspyrnu. Andrea Caracciolo lét Julio Cesar hinsvegar verja frá sér vítið og skömmu síðar fékk Caracciolo sitt annað gula spjald.

Inter hafði minnkað forskot nágrannanna í AC Milan í tvö stig með sigri en nú munar fjórum stigum á liðunum auk þess að AC á leik inni. Brescia er áfram í næstneðsta sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×