Innlent

Íslendingar eru fésbókaróð þjóð

JMG skrifar
Um áttatíu prósent Íslendinga nota samskiptasíðuna Facebook. Markaðsstjóri Facebook segir fyrirtæki nýta sér síðuna í auknum mæli til að nálgast neytendur á nýjan hátt.

Rick Kelley markaðsstjóri Facebook í Evrópu, Miðausturlöndum og Asíu hélt fyrirlestur á markaðsráðstefnu Nordic eMarketing í Smárabíó í dag. Hann sagði sig knúinn til að koma hingað til lands og kynnast þessarri Facebook óðu þjóð.

„Mér finnst fólkið hafa tileinkað sér þennan vettvang mjög vel. Rúm 80% íslensku þjóðarinnar nota Facebook að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Og ekki bara einu sinni í mánði. Um 60% nota hana sex daga í viku," segir Rick Kelley.

Rick segir Facebook hafa breytt því hvernig fólk skoðar internetið. „Þetta er orðið miklu persónulegra. Nú fer maður á fréttasíðu og sér kannski grein sem vinir manns hafa mælt með. En áður var það almenningsálitið eða það sem ritstjórarnir vildu að maður læsi. Ef maður flakkar um Netið og tekur vini sína með sér hefur það meira gildi fyrir mann því áhugamál manns sjálfs eru oft þau sömu og hjá vinum manns," segir hann.

Því sé Facebook mikilvægur tengiliður fyrir markaðsfólk við viðskiptavini. Fjöldi fyrirtækja hafa áttað sig á þessu og yfir 10 þúsund heimasíður á dag eru að innleiða Facebook svo að fólk geti mælt með vörum og þjónustu til vina sinna.

„Eftir því sem fleiri fyrirtæki gera það og nýta sér kosti Facebook og samþætta það sínum eigin síðum, vörum og auglýsingum verður þetta betri upplifun fyrir alla," segir Kelley að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×