Innlent

Framtíð Ragnars hjá Framtakssjóðnum óráðin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnar Önundarson er varaformaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands.
Ragnar Önundarson er varaformaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um framhald á störfum Ragnars Önundarsonar, fyrir Framtakssjóð Íslands. Ragnar er varaformaður í stjórn Framtakssjóðsins og situr þar fyrir hönd stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Ragnar hefur einnig gegnt stöðu varaformanns Lífeyrissjóðs verslunarmanna en tilkynnti í dag að hann myndi láta af því embætti.

„Það verður bara háð óskum stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Ég er tilnefndur af stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Það er alfarið í þeirra höndum og ég geri bara það sem þeir óska," segir Ragnar um áframhaldandi störf sín fyrir Framtakssjóð Íslands.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er ráðgert að halda aðalfund Lífeyrissjóðs verslunarmanna í maí. Ráðgert er að halda stjórnarfund um miðjan apríl og annan um miðjan maí þar sem fram gætu komið sjónarmið stjórnarmanna um áframhaldandi störf Ragnars. Fréttastofa hafði samband við Helga Magnússon, formann stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, vegna málsins. Hann vildi ekkert tjá sig og vísaði á Ragnar sjálfan.

Ragnar var framkvæmdarstjóri Kreditkorta hf., árið 2005, þegar samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á ólögmætu samráði fryritækisins, Greiðslumiðlunar og Fjölgreiðslumiðlunar gegn nýjum keppinauti á markaðnum. Rannsókninni lauk með sátt í ársbyrjun 2008, gegn 735 milljóna króna stjórnvaldssekt fyrirtækjanna þriggja. Í Kastljósi gærkvöldsins voru birt ný gögn í málinu, meðal annars tölvupóstssamskipti Ragnars og fleiri aðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×