Innlent

Fjórar kindur drápust þegar gólf hrundi í fjárhúsi

Fjórar kindur drápust, þegar gólf hrundi í heilu lagi undan 90 kindum í fjárhúsi að bænum Fagraneskoti í Aðaldal í gær. Gólfið og ærnar höfnuðu ofan í svonefndu taðhúsi undir fjárhúsinu, eftir tveggja metra fall. Bóndinn kallaði eftir aðstoð björgunarsveitarmanna, sem hjálpuðu til við að koma fénu út og sleppa því á túnið, sem er nánast snjólaust.

Síðan var ráðist í að hreinsa brakið og taðið út úr húsinu, og jafnframt að viða að timbri, til að slá upp nýju gólfi og standa framkvæmdir nú sem hæst. Á meðan hefur féð húsaskjól í tómri hlöðu á bænum.

Að sögn Guðmundar Jónssonar bónda, er ekki vitað hversvegna þetta gerðist, en timburverkið í gólfinu og uppistöðum er orðið 30 ára gamalt og kominn einhver fúi í það. Nokkrar kindanna, sem komust lífs af eru eitthvað lemstraðar eftir fallið og óttast Guðmundur að lömbin í einhverjum þeirra kunni að hafa drepist en það komi ekki í ljós fyrr en um sauðburð, sem nú styttist í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×