Körfubolti

Keflavíkurkonur í lokaúrslitin í fimmtánda sinn - unnu KR 70-62

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir og félagar í Keflavík eru komnar í úrslitaeinvígið.
Pálína Gunnlaugsdóttir og félagar í Keflavík eru komnar í úrslitaeinvígið. Mynd/Valli
Keflavík tryggði sér sæti í lokaúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn með átta stiga sigri á KR-konum, 70-62, í DHL-höllinni í kvöld. Þetta er í fimmtánda sinn sem Keflavíkurkonur spila til úrslita um titilinn en janframt í fyrsta sinn síðan 2007 sem KR-liðið fer ekki alla leið í úrslit. Keflavík vann tvo síðustu leiki einvígisins og þar með einvígið 3-1. Keflavík mætir Hamar eða Njarðvík í lokaúrslitunum en þau spila oddaleik í Hveragerði á þriðjudagskvöldið.

Keflavíkurkonur voru sterkari í byrjun, komust í 9-2 og voru 24-14 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Keflavík var síðan með 29-19 forystu þegar KR-konur skoruðu 15 stig í röð á rúmum fimm mínútum í öðrum leikhluta og komust í 34-29. Keflavík náði að minnka muninn aftur í tvö stig, 34-32, fyrir hálfleik.

KR-liðið skoraði fimm fyrstu stig seinni hálfleiksins og komst í 39-32 og var sjö stigum yfir, 45-38, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhlutanum. Keflavík skoraði þá níu stig í röð áður en þriggja stiga Sólveigar Gunnlaugsdóttur sá til þess að KR var 48-47 yfir fyrir lokaleikhlutann.

Keflavíkurliðið var hinsvegar komið aftur í gang og tók frumkvæðið með því að skora tíu fyrstu stig lokaleikhlutans og komast í 57-48 forystu þegar sex mínútu voru eftir af leiknum. Keflavíkurliðið hélt síðan þeirri forystu og vann að lokum átta stiga sigur.

KR-Keflavík 62-70 (14-24, 20-8, 14-15, 14-23)KR: Margrét Kara Sturludóttir 13/10 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 11/5 fráköst, Melissa Ann Jeltema 10/6 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 8, Signý Hermannsdóttir 7, Sólveig Helga  Gunnlaugsdóttir 7, Hafrún Hálfdánardóttir 4, Helga Einarsdóttir 2/7 fráköst.

Keflavík: Marina  Caran 21, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 14/5 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 13/5 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 11/8 fráköst, Lisa Karcic 8/16 fráköst/3 varin skot, Ingibjörg Jakobsdóttir 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×