Innlent

Fimm máltíðir á dag á heimavistinni á Laugum

Einn af síðustu skólum landsins þar sem ungmenni geta búið á heimavist úti í sveit er að Laugum í Þingeyjarsýslu. Þar fer aðeins helmingur námstímans fram í kennslustofum og þangað komast færri nemendur en vilja.

Þarna byrjaði alþýðuskóli árið 1925, hann varð að héraðsskóla og nú er þetta Framhaldsskólinn að Laugum. Þótt gamla heimavistarfyrirkomulagið, sem fylgdi blómaskeiði sveitanna, sé víðast hvar löngu horfið, lifir það enn góðu lífi þarna. Hér fá krakkarnir á heimavistinni fimm máltíðir á dag: Morgunmat, hádegismat, miðdegiskaffi, kvöldmat og loks kvöldkaffi.

Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari segir að því fylgi bæði sérstaða og forréttindi að búa í sveit og það sé ógleymanlegt að vera í skóla í sveit.

Þarna eru nýleg sundlaug og íþróttahús og skólahús upp á samtals 6.500 fermetra fyrir 115 nemendur. Valgerður segir að þarna gangi nemendur inn í frábæra aðstöðu og heimilislíf. Þeim sé sinnt sem persónum og færri komist að en vilja.

Skólinn er langstærsti vinnustaður sveitarinnar, með 38 starfsmenn, og í kringum hann hefur vaxið upp 110 manna þorp á Laugum, þar sem íbúum fjölgaði um fjórðung á síðustu tíu árum.

Nemendur koma úr öllum landshlutum og þar hefur nýtt kennslufyrirkomulag verið þróað á undanförnum árum. Nemendur eru í hefðbundnum kennslustundum um helming námstímans en hinn helminginn í vinnustofum undir stjórn kennara þar sem þeir sinna verkefnum að eigin vali.

Þetta gefur nemendum færi á að hraða náminu og segir Valgerður að það sé orðið algengara að nemendur ljúki stúdentprófi á þremur til þremur og hálfu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×