Innlent

Mónakó Supermarket opin tvo tíma á dag

Eina búðin á Bakkafirði er bara opin tvo tíma á dag og er um leið helsti samkomustaður þorpsins. Þegar markaðssvæðið er bara þrjátíu heimili má raunar furðu gegna að verslun skuli þrífast á Bakkafirði. Hún ber alþjóðlegt nafn, Mónakó Supermarket, enda margir íbúanna útlendingar, og við spyrjum kaupmanninn, Björn Guðmund Björnsson, hvort dæmið gangi upp.

Hann segir þetta ganga upp með útsjónarsemi en hann lifi ekki á þessu og viðurkennir að þetta sé meira gert af hugsjón enda sé hann hlynntur Bakkafirði og þar vilji hann vera. Það myndi þó ekki stórsjá á fjárhagnum ef hann hætti þessu, segir Björn.

Búðin er opin fimm daga vikunnar, tvo tíma í senn, milli klukkan 16 og 18. Vöruúrvalið þykir okkur furðu mikið. Allt það helsta sem heimilið þarfnast, ferskar mjólkurvörur, grænmeti og ávextir, en líka bílavörur.

En það er dýrt að fá vörurnar sendar til Bakkafjarðar og áætlar Björn að ef flutningskostnaður myndi lækka um 50% gæti hann lækkað álagningu um 18%.

En þetta er ekki bara búð. Í setustofu er boðið upp á frítt kaffi. Þetta er eini staðurinn þar sem Bakkfirðingar hittast daglega. "Hér er oft þétt setið og rætt um Icesave og fleira," segir Björn og hlær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×