Viðskipti erlent

Lýst eftir lukkupeningi Jóakims frænda

Iðnaðarsafn Danmerkur í Horsens leitar nú með logandi ljósi að eintaki af lukkupeningi Jóakims frænda frá Andabæ. Hefur safnið raunar lýst eftir slíkum peningi vegna sýningar sem er framundan á safninu.

Lukkupeningur Jóakims frænda er afar sjaldgæfur þar sem megninu af upplagi hans var eytt vegna tilmæla frá danska seðlabankanum.

Fjallað er um málið í Berlingske Tidende. Þar segir að árið 1994 hafi lukkupeningurinn verið sleginn og átti að dreifa honum með blaðinu Lommeanden nr. 10 það árið. Hinsvegar þótti peningurinn svo líkur dönsku 10 króna myntinni að seðlabankinn fékk peninginn innkallaðan og eyðilagði upplag hans. Þó ekki alveg því nokkrir af þessum lukkupeningum sluppu í umferð með fyrrgreindu blaði.

Sýningin sem Iðnaðarsafnið er að setja á fót á að hefjast í næsta mánuði en hún fjallar um teiknimyndaseríur og telja forráðamenn safnsins að vart sé hægt að opna hana nema lukkupeningurinn sé til staðar.

Þess má svo geta að skömmu eftir að frétt um málið birtist á vefsíðu Berlingske Tidende höfðu hjón í Lyngby samband við safnið og sögðust eiga eintak af lukkupeningnum í fórum sínum. Þau ætla að senda hann til Horsens. Hjónin höfðu eignast peninginn þegar eiginkonan keypti eintak af Lommeanden nr. 10 árið 1994. Lengi hafði staðið til að henda þessum pening í ruslið en nú bjargar hann sýningunni í Horsens.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×