Viðskipti erlent

Enn þynnri og samanbrjótanlegur iPhone

Samúel Karl Ólason skrifar
Tim Cook, forstjóri Apple, og aðrir forsvarsmenn fyrirtækisins eru sagðir vilja breytingar á vörum til að auka sölu.
Tim Cook, forstjóri Apple, og aðrir forsvarsmenn fyrirtækisins eru sagðir vilja breytingar á vörum til að auka sölu. AP/Alberto Pezzali

Innan veggja Apple er unnið að umfangsmiklum breytingum á helstu vörum fyrirtækisins. Til stendur að gefa út þynnri og ódýrari síma og tvær týpur af samanbrjótanlegum tækjum og það mögulega á næsta ári. Markmiðið er að auka sölu tækja, sem þykir hafa vaxið hægt á undanförnum árum.

Símar Apple eru um það bil átta millimetra þykkir en samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal innan fyrirtækisins stendur til að bæta við enn þynnri símum, sem verða einnig búnir ódýrari myndavélum og eiga þeir að vera ódýrari en helstu iPhone dagsins í dag.

Þá flytur miðillinn nýjar fréttir af samanbrjótanlegum tækjum Apple, sem munu mögulega koma á markað á næsta ári eða árið 2027. Tvö slík tæki eru í þróun hjá Apple en annað þeirra er á stærð við fartölvu, eða með um nítján tommu skjá þegar það er opið. Hitt tækið er með skjá sem er stærri en skjár iPhone 16 Pro Max.

Þessi tæki hafa verið í þróun um langt skeið en heimildarmenn WSJ segja þróunina hafa gengið erfiðlega. Sérstaklega þegar kemur að hjörum tækjanna og skjám.

Hjarirnar þurfa að virka vel og lengi og upprunalega stóð til að hafa skjáina utan á tækjunum. Þar munu breytingar hafa verið gerðar og eiga skjáirnir nú að vera inn í tækinu samanbrotnu. Stærra tækið átti að koma á markað fyrst en nú virðist sem símarnir verði á undan.

Forsvarsmenn Apple hafa viljað gefa símana út árið 2026 en óljóst er hvort það takist vegna erfiðleika við þróunarvinnuna. Forbes sagði frá því í sumar að forsvarsmenn Apple væru hrifnari af samlokusímum, frekar en langlokusímum.

Vilja breytingar og betri sölu

Sala síma samsvarar um helmingi allra tekna Apple en salan hefur ekki staðist væntingar forsvarsmanna fyrirtækisins og fjárfesta að undanförnu. Tekjur þessa árs jukust um minna en eitt prósent, borið saman við árið áður og eru forsvarsmenn Apple sólgnir í nýjar vörur sem gætu aukið söluna.

Eins og fram kemur í grein WSJ eru samanbrjótanlegir símar ekki nýir af nálinni en þeir marka þrátt fyrir það umtalsverðar breytingar á helstu vörulínum Apple. Umfangsmeiri breytingar en farið hefur verið í þar um nokkuð skeið.

Undanfarin ár hafa flest stærstu símafyrirtækja heims uppfært síma sína með hraðari örflögum, betri myndavélum og slíkum breytingum sem hafa ekki markað umfangsmiklar breytingar á tækjunum sem þykja líklegri til að fá fólk til að skipta oftar um síma.

Samanbrjótanlegir símar hafa ekki reynst gjöful mið, ef svo má að orði komast, fyrir önnur fyrirtæki eins og Samsung og Huawei. Áætlað er að á þessu ári hafi um 1,5 prósent allra seldra síma í heiminum verið samanbrjótanlegir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×