Viðskipti erlent

Kröftug uppsveifla á markaðinum í Tókýó

Kröftug uppsveifla varð á hlutabréfamarkaðinum í Tókýó í nótt en Nikkei vísitalan hækkaði um tæp 4,4%. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem hlutabréf hækka í verði á markaðinum.

Þrátt fyrir miklar hækkanir í Tókýó undanfarna þrjá markaðsdaga er Nikkei vísitalan ennþá 8% lægri en hún var áður en jarðskjálftinn og flóðbylgjan sem fylgdi honum skall á Japan.

Í frétt um málið á börsen.dk segir að fréttir um að geislavirknin í Fukushima kjarnorkuverinu sé í rénun hafi haft töluvert að segja um hækkunin í Tókýó sem og að stórfelldar aðgerðir seðlabanka G7 ríkjanna til að veikja jenið hafi borið tilætlaðan árangur.

Þá hafa yfirlýsingar ofurfjárfestirins Warren Buffett um að hann sjái kauptækifæri á markaðinum í Japan haft sitt að segja. Margir fjárfestar taka hvert orð Buffett um markaðinn sem heilaga ritningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×