Innlent

Jóhanna ætlar að funda með Steingrími á næstu dögum

Jóhanna Sigurðardóttir Mynd/Vilhelm
Jóhanna Sigurðardóttir Mynd/Vilhelm
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir að ákvörðun Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur um að segja sig úr þingflokki Vinstri grænna hafi ekki skaðað ríkisstjórnarsamstarfið. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, útilokar ekki breytingar á ríkisstjórnarsamstarfinu en hún ætlar funda með Steingrími á næstu dögum.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir að ákvörðun Atla og Lilju hafi komið sér veruleg á óvart og að þetta séu vonbrigði

Hann segir að ríkisstjórnin standi í aðalatriðum óbreytt. „Við höfum aðeins misst liðstyrk en erum samt með traustan meirihluta. Það ríkir fullur trúnaður og traust milli þingflokkanna, ég finn ekki að þar sé nein breyting á,“ segir Steingrímur sem ætlar ekki að fara í karp við Lilu og Atla en setur þó út á eitt í þeirra yfirlýsingu. „Að málfrelsi í flokknum sé heft, ég hef ekki séð að málfrelsi Lilju Mósesdóttur sé sérstaklega takmarkað,“ segir hann.

Atli og Lilja gagnrýna flokksforystu Vinstri grænna harðlega í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér í dag.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að þetta hafi ekki komið sér á óvart. Hún segir ákvörðun Lilju og Atla veiki meirihlutann til að hann geti ráðið við þau erfiðu verkefni sem eru framundan. „Við höfum hingað til komist í gegnum stór verkefni þó að einstaka þingmaður í Vinstri grænum hafi ekki stutt okkur, ég vona að við gerum það hér eftir. Það er erfitt að missa liðstyrk, en þetta er staðan við verðum bara vinna úr því,“ segir Jóhanna.

Og Jóhanna ætlar að funda með Steingrími um þá stöðu sem upp er komin.

Þú ert samt viss um það að ríkisstjórnin muni lifa þetta af? „Já ég hef fulla trú á því að hún geri það. Við þurfum að fara yfir þessa stöðu. Það eru stór og erfið viðfangsefni framundan. Við þurfum að ná hér upp hagvextinum og skoða hvort það þurfi að gera breytingar,“ segir Jóhanna og tekur fram að hún ætli að ræða við Steingrím þegar hún er spurð frekar út í þessar breytingar.

En kemur til greina að fá þriðja flokkinn inn í ríkisstjórnina? „Við þurfum að hafa stuðning og styrk til að ná þessum stóru málum í gegn og til þess þurfum við að hafa traustan meirihluta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×