Innlent

15 mánaða fangelsi fyrir að smygla amfetamíni í skópörum

Maðurinn lenti á Keflavíkurflugvelli.
Maðurinn lenti á Keflavíkurflugvelli.
Serbneskur karlmaður var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir að flytja tæp átta hundruð grömm af amfetamíni inn til landsins. Maðurinn kom hingað til lands í nóvember á síðasta ári frá Danmörku. Maðurinn reyndist vera með amfetamínið falið í tveimur skópörum.

Maðurinn neitaði því að fíkniefnin hafi verið til söludreifingar í ágóðaskyni og vildi meina að þau hefðu verið til eigin nota. Í framburði mannsins var mikið misræmi samkvæmt dómsorði og er framburður hans um margt með miklum ólíkindum.

Hjá lögreglu skýrði hann frá því að hann væri atvinnulaus en samt hafi hann haft efni á því að fara í frí til Spánar í október 2010, kaupa þar fíkniefni fyrir 4.000 evrur, fljúga svo til Danmerkur og dvelja þar í um eina og hálfa viku og fljúga þaðan til Íslands.

Þá kom fram í gögnum málsins að maðurinn hefði komið oftar hingað til lands á árinu 2010, meðal annars í ágúst.

Maðurinn vildi ekki tjá sig um það hvernig hann hefði fjármagnað ferðir sínar og uppihald og hver hefði verið tilgangur með dvöl hans í Danmörku, þaðan sem hann flaug með efnin.

Maðurinn er á fertugsaldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×