Fótbolti

Ronaldo aftur meiddur og tæpur fyrir Tottenham-leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fór meiddur af velli í 2-1 sigri Real Madrid á nágrönnunum í Atletico Madrid um helgina og portúgalska landsliðsmaðurinn gæti verið frá í tvær til þrjár vikur. Það er því ekki öruggt að Ronaldo verði með Real á móti Tottenham í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Ronaldo meiddist aftan í læri og var tekinn útaf eftir 73 mínútur. Það vakti reyndar athygli að hann fagnaði ekki seinna marki Real í leiknum með félögum sínum heldur var þá upptekinn af því að kvarta við dómarann að hafa ekki fengið dæmt víti skömmu áður.

Ronaldo er nýstiginn upp úr svipuðum meiðslum en hann missti af tveimur leikjum fyrir seinni leikinn á móti Lyon í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Ronaldo hefur skorað 37 mörk í 42 leikjum á þessu tímabili.

bRonaldo mun missa af landsleikjum Portúgals við Síle og Finnland en hann mun væntanlega reyna að nýta landsleikjahléið til þess að ná sér af þessum þrálátu meiðslum.

Real tekur á móti Tottenham 5. apríl og seinni leikurinn er svo á White Hart Lane 13. apríl. Real-liðið fær ekki mikla hvíld fyrir fyrri leikinn því liðið spilar við Sporting Gijon 3. apríl eða aðeins tveimur dögum áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×