Innlent

Skattahækkanir þjarma að garðyrkjustöð

Sú garðyrkjustöð landsins, sem er með víðfeðmustu gróðurhúsin, er ekki á Suðurlandi heldur skammt sunnan Húsavíkur. Hlutafélagið er yfir eitthundrað ára gamalt, talið það næstelsta hérlendis, en nú er svo komið að skattaálögur þjarma að rekstrinum.

Fyrir marga sem búa sunnan heiða er erfitt að ímynda sér að ein öflugasta garðyrkjustöð landsins sé í Suður-Þingeyjarsýslu, nánar tiltekið á bænum Hveravöllum í Reykjahverfi. Eins og nöfnin benda til eru þarna hverir sem Garðræktarfélag Reykhverfinga hefur nýtt í meira en öld en félagið var stofnað árið 1904.

Páll Ólafsson garðyrkjubóndi segir að þeir viti ekki betur en að þetta sé næstelsta hlutafélag landsins. En það er ekki aðeins að stöðin sé gömul, þeir vita ekki til þess að nein önnur státi af jafn miklum gróðurhúsum og þessi, þeir séu stærstir undir gleri á landinu.

Þeir eru líka einna stærstir í tómatarækt á landinu. Undir sjöþúsund fermetrum eru framleiddar þrjár tegundir tómata en einnig gúrkur, paprikur og blóm. Og það munar um svona starfsemi fyrir héraðið. Páll segir að þarna séu fjórtán ársverk og þau hafi mikla þýðingu fyrir samfélagið þarna.

Helsta markaðssvæðið er á Norðausturlandi en þeir þurfa einnig að selja til Reykjavíkur. Páll segir hins vegar að flutningskostnaður sé orðinn mjög íþyngjandi með hækkandi álögum á eldsneyti. En það er fleira en skattahækkanir á bensín og dísilolíu sem þjarma að rekstrinum og segir Páll í viðtali á Stöð 2 að hækkun tryggingagjalds hafi bitnað mjög á rekstri fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×