Innlent

Arnar og Bjarki reisa raðhús á Langanesi

Smíði sex raðhúsa er að hefjast á Þórshöfn á Langanesi, fimmtán árum eftir að íbúðarhús var síðast byggt þar. Það eru knattspyrnutvíburarnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir sem ríða á vaðið.

Meðan önnur byggðarlög á norðaustanverðu landinu hafa mátt þola umtalsverða fólksfækkun á undanförnum áratug er Þórshöfn það eina sem haldið hefur í horfinu en þar búa nú 380 manns.

Uppbygging Ísfélags Vestmannaeyja og fiskvinnsla þess vegur þar þyngst. Sveitarstjóri Langanesbyggðar, Gunnólfur Lárusson, segir að atvinnuástand hafi verið gott og mikil umsvif, ekki aðeins í sjávarútvegi heldur einnig í byggingargeira, þar sem margir hafi verið að endurbæta húseignir sínar.

Þetta hefur leitt til þess að skortur hefur verið á íbúðum og hefur sveitarfélagið reynt að mæta þessu með því að selja eigin íbúðir.

Og nú eru að verða tímamót. Smíði sex raðhúsa er að hefjast á þessari lóð en fimmtán ár eru frá íbúðarhús var síðast reist á Þórshöfn.

Húsin eiga að vera tilbúin í haust og verða bæði leigð og seld. Þeir sem standa að smíðinni, að sögn Gunnólfs, eru knattspyrnutvíburarnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir, og segir Gunnólfur að þeir virðist hafa trú á landsbyggðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×