Innlent

Tugir mótmæltu meðferð á tíkinni Chrystel - eigendur fengu áfall

Símon Birgisson skrifar
Tugir eigenda Rottweiler hunda komu saman í dag og mótmæltu því að Rottweiler tík, sem beit konu, verði tekin af lífi. Tíkin var færð á dýraspítala eftir að hafa hlotið grimmúðlega meðferð þar sem hún var vistuð.

Fyrir um mánuði síðan beit tíkin Chrystel konu og á því, reglum samkvæmt, að vera lógað. Chrystel var tekin af dýraeftirliti Hveragerðis og vistuð hjá einkaaðila. Þar var aðbúnaðurinn slíkur að tíkin var hætt komin.

„Þetta var hræðilegt. Í eitt skipti sem við komum að var hún rennandi blaut, skorin á löppinni og búið að vera opið inn til hennar allan daginn og sofa og rigna. hún lá bara í sínum eigin skít. var komin með sýkingu í augun og búin að horast niður. hún var bara virkilega veik," segir Íris Helga Valgeirsdóttir.

„Ég og Þórdís dóttir mín, við fórum bara saman og brotnuðum niður. Við fengum bara algjört áfall," segir Íris Helga þegar hún lýsir tilfinningum sínum þegar hún sá tíkina.

Tíkinni var bjargað og flutt á dýraspítalann í Garðabæ þar sem gert var að sárum hennar. Lögmaður fjölskyldunnar segir tíkina hafa þurft að þola ástæðulausar þjáningar.

Í dag komu svo um fimmtíu eigendur Rottweiler hunda saman til að sýna Írisi og fjölskyldu hennar samstöðu og skora á yfirvöld að þyrma lífi hundsins.

„Við erum óhress hvernig er staðið að þessu og ómanneskjulegar aðfarir og aðbúnaður sem hún er með þar," sagði Ingi A. Guðnason sem var meðal þeirra sem mótmæltu í Garðheimum.


Tengdar fréttir

Dýralæknir vill láta lóga Rottweiler tíkinni

Héraðsdýralæknir Suðurlandsumdæmis vill láta lóga Rottweiler-tík sem réðst á konu í Hveragerði í byrjun mánaðarins. Eigandi tíkarinnar er afar ósátt við þessa niðurstöðu þar sem hundurinn er "ekki hættulegur í daglegri umgengni" samkvæmt skapgerðarmati.

Rottweiler tíkin útötuð í saur: Lögmaður ósáttur

Eigandi Rottweiler-tíkar, sem tekin var af heimili sínu í Hveragerði eftir að hún beit konu í byrjun mánaðarins, er afar ósátt við þann aðbúnað sem tíkin var vistuð við hjá dýraeftirliti Selfoss. Hún hefur ráðið sér lögmann til að leita réttar síns og tíkarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×