Innlent

Gullgæsir vilja verpa á Íslandi

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Erlendir fjárfestar sem sótt hafa um íslenskan ríkisborgararétt njóta liðsinnis bandaríska lögfræðingsins Davids Lesperance. Hann sérhæfir sig í ráðgjöf um hvernig menn geta fengið ríkisborgararétt í löndum þar sem skattkerfið er þeim hagstætt.

Hópur íslenskra athafnamanna þrýstir nú á allsherjanefnd Alþingis að veita mönnunum tíu ríkisborgararétt með undanþágum til að fjárfesta í íslenskum orkufyrirtækjum og netþjónabúum. Hópurinn er sagður hafa yfir að ráða 1700 milljörðum króna.

Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, staðfestir í samtali við fréttastofu að David S. Lesperance starfi fyrir mennina.

Lesperance sérhæfir sig í að aðstoða fjárfesta við að koma upp svokölluðu Passport Portfolioi. Þ.e. að menn hafi ríkisborgararétt í því landi sem þjóni fjárhagslegum hagsmunum þeirra hverju sinni.

Á heimasíðu sinni sýnir Lesperance myndband af gullgæs til að útskýra starf sitt. Gæsin verpir gulleggjum en öll hin dýrin heimta að gæsin gefi býlinu hluta af þeim eggjum sem hún verpir til að tryggja samfélaginu á bóndabænum velferð.

Einn daginn kemur svo gáfuð ugla og segir gæsinni að hún viti um fallegan stað þar sem hún geti verpt eggjum sínum í friði og átt þau öll sjálf. Þangað fari uglan með margar gullgæsir. Gullgæsin slær til og lifir hamingjusöm til æviloka.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í þinginu í dag að Fjárfestahópurinn veki hjá sér grunsemdir.

Málið bíður nú afgreiðslu allsherjanefndar. Jóhanna kveðst treysta nefndinni fyrir málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×