Innlent

Sýknaður af kynferðisbroti gegn fimm ára stelpu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstiréttur Íslands staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands. Mynd/ Stefán.
Hæstiréttur Íslands staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands. Mynd/ Stefán.
Hæstiréttur sýknaði í dag karlmann af ákæru um kynferðisbrot. Hann var sakaður um að hafa berað á sér kynfærin fyrir framan fimm ára stúlku og látið hana afklæðast að hluta og káfað á líkama hennar, þar með talið á kynfærum hennar og rassi utan klæða.

Í Héraðsdómi Suðurlands var talið að meðferð málsins fram að skýrslugjöf meints brotaþola fyrir dómi hefði verið til þess fallin að rýra sönnunargildi þess vitnisburðar og varð því ekki byggt á honum við sönnunarmat í málinu. Vísað var til þess að þrátt fyrir aldur meints brotaþola hefði ekki verið hlutast til um að hún gæfi skýrslu fyrir dómi fyrr en rúmum mánuði eftir samskipti barnsins við manninn.

Segir Hæstiréttur að þá hafi stelpan ítrekað verið yfirheyrð um atvik málsins hjá sálfræðingi og hafði móðir hennar látið hana taka þátt í sérstökum leik í þeim tilgangi að fá fram frásögn um það sem gerst hafði. Dómskýrsla stelpunnar hafi borið þess merki að í einhverjum tilvikum hefði framburður hennar litast af því sem móðir hennar hafði tjáð henni. Þar sem engum öðrum sönnunargögnum var til að dreifa sem sýndu fram á sekt mannsins var hann sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti í dag með vísan til forsendna héraðsdóms.     




Fleiri fréttir

Sjá meira


×