Innlent

Barðstrendingar orðnir reiðir vegna vegamála

Ólína Þorvarðardóttir er þingmaður Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. Mynd/ Vilhelm.
Ólína Þorvarðardóttir er þingmaður Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. Mynd/ Vilhelm.
Ólga er meðal Samfylkingarmanna á sunnanverðum Vestfjörðum í garð þriggja þingmanna flokksins, sem þeir segja vinna gegn óskum íbúa fjórðungsins um vegarbætur.

Barðstrendingar berjast nú fyrir því að losna við veginn um Ódrjúgsháls og Hjallaháls og telja að eina raunhæfa leiðin sé að fá nýjan veg í gegnum Teigsskóg. Stjórnarmaður í Samfylkingarfélaginu í Vesturbyggð, Haukur Már Sigurðarson á Patreksfirði, segir að flokksmenn þar séu ósáttir við að Ólína Þorvarðardóttir skyldi leggjast gegn málinu og segir að hún skuldi íbúum skýringu.

"Það getur vel verið að afstaða hennar sé fullkomlega eðlileg en okkur finnst hún ekki hafa skýrt mál sitt nægilega til þess að við getum verið sátt við hana, - að sinni," segir Haukur.

Óánægjan beinist einnig að þingmönnunum Merði Árnasyni og Róberti Marshall fyrir að leggja til á Alþingi að svæðið umdeilda verði gert að þjóðgarði.

"Við erum mjög stolt af okkar náttúru og erum fullfær um að verja hana fyrir ágangi annarra, ef því er að skipta," segir Haukur. Hann segir að það að koma með tillögu núna á þessum tímapunkti um að friða þetta svæði sé eingöngu gert til að trufla umræðuna, þegar kannski hylli undir samgöngubætur. Barðstrendingar séu um árabil búnir að berjast fyrir þjóðgarði við Látrabjarg og nær hefði verið fyrir þingmennina að leggja þeim lið í þeirri baráttu.

Haukur Már segir að reiði sé farið að gæta meðal íbúanna vegna ástands vegamála.

"Stundum hafa menn verið óánægðir og óþreyjufullir en núna finnst mér vera kominn vendipunktur í þetta og menn séu orðnir reiðir," segir vestfirski Samfylkingarmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×