Körfubolti

Keflavíkurkonur Íslandsmeistarar

Óskar Ófeigur Jónsson í Sláturhúsinu skrifar
Keflavíkurkonur eru Íslandsmeistarar í kvennakörfunni í fjórtánda sinn eftir tíu stiga sigur á Njarðvík, 61-51, í Toyota-höllinni í kvöld í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Iceland Express deildar kvenna. Keflavík vann einvígið 3-0 og alls 6 af 7 leikjum sínum í úrslitakeppninni í ár.

Keflavíkurkonur eru þar með fyrsta liðið í fjögur ár sem vinnur tvöfalt í kvennaboltanum, það er tekur báða stóru titlana, Íslandsmótið og bikarinn, en Haukar höfðu afrekað það síðast árið 2007. Þetta er annars í tíunda sinn sem Keflavíkurliðið vinnur tvöfalt á tímabili en Keflavíkurkonur eru að ná þeim árangri í fyrsta sinn síðan tímabilið 2003-2004.

Í myndbandi með þessarri frétt má hjá Keflavíkurdömur taka á móti Íslandbikarnum í kvöld en það var fyrirliðinn Birna Valgarðsdóttir sem lyfti bikarnum.

Keflavík komst í 17-2 í fyrsta leikhluta og var alltaf skrefinu á undan þrátt fyrir að Njarðvíkurliðið hafi nokkrum sinnum náð að minnka muninn niður í tvö stig.

Pálína Gunnlaugsdóttir fór fyrir Keflavíkurliðinu í kvöld og var með 17 stig og 7 fráköst. Ingibjörg Jakobsdóttir skoraði 14 stig og Lisa Karcic var með 14 stig og 16 fráköst.

Julia Demirer (14 stig og 14 fráköst), Dita Liepkalne (10 stig og 13 fráköst) og Shayla Fields (12 stig) fóru fyrir Njarðvíkurliðinu að venju en það vantaði tilfinnanlega meira framlag frá öðrum leikmönnum.

Keflavíkuliðið byrjaði leikinn á mikilli skotsýningu og var komið í 11-2 eftir rúmar þrjár mínútur eftir að hafa sett niður þrjá þrista í röð. Ingibjörg Jakobsdóttir skoraði tvo þeirra. Keflavík skoraði á endanum 17 af fyrstu 19 stigum leiksins og Njarðvík skoraði ekki sína aðra körfu í leiknum fyrr en eftir rúmar sjö mínútur.

Þá var orðinn á brattann að sækja fyrir Njarðvíkurkonur sem náðu þó að minnka muninn í ellefu stig fyrir lok leikhlutans, en staðan var þá 19-8 fyrir Keflavík.

Njarðvík skoraði sex fyrstu stig annars leikshluta og kom muninum niður í fimm stig, 19-14. Pálína Gunnlaugsdóttir fór þá fyrir öðrum góðum kafla Keflavíkur og skoraði 8 af 11 stigum liðsins á þremur mínútum á meðan Keflavík komst í 30-18 forystu.

Njarðvíkurliðið kom sér hinsvegar aftur inn í leikinn með því að skora ellefu stig gegn tveimur á næstu tveimur og hálfri mínútu og minnkaði muninn niður í þrjú sitg, 32-29. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði síðustu tvö stig fyrri hálfleiks af vítalínunni og Keflavík var því 34-29 yfir í leikhléi.

Pálína Gunnlaugsdóttir (10 stig) og Ingibjörg Jakbsdóttir (9 stig) voru saman með 19 stig í fyrri hálfleiknum en Shayla Fields skoraði mest fyrir Njarðvík eða 9 stig.

Njarðvíkurliðið náði muninum niður í tvö stig í upphafi þriðja leikhluta, 34-32, en Keflavík svaraði strax með góðum spretti og komst í 40-32 og 45-37. Njarðvík náði aftur að minnka muninn í tvö stig, 45-43, þegar 72 sekúndur voru eftir af þriðja leikhlutanum en Keflavík skoraði fimm síðustu sig leikjlutans og var 50-43 yfir fyrir lokaleikhlutann.

Keflavíkurliðið var skrefinu á undan í fjórða leikhlutanum og þriggja stiga karfa Lisu Karcic kom þeim níu stigum yfir, 56-47, þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Pálína Gunnlaugsdóttir fór síðan langt með því að klára leikinn þegar hún skoraði körfu og setti niður víti að auki og kom Keflavík í 59-51 þegar 2 mínútur og 26 sekúndur voru eftir.





Keflavík-Njarðvík 61-51 (19-8, 15-21, 16-14, 11-8)Keflavík: Pálína Gunnlaugsdóttir 17/7 fráköst, Lisa Karcic 14/16 fráköst/4 varin skot, Ingibjörg Jakobsdóttir 14, Bryndís Guðmundsdóttir 7/5 fráköst/5 stoðsendingar, Marina Caran 7/4 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 2/9 fráköst.

Njarðvík : Julia Demirer 14/14 fráköst, Shayla Fields 12/7 fráköst, Dita Liepkalne 10/13 fráköst/5 stoðsendingar, Ólöf Helga Pálsdóttir 8, Auður R. Jónsdóttir 4/4 fráköst, Eyrún Líf Sigurðardóttir 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×