Körfubolti

Magnús: Erum til í að slasa okkur fyrir málsstaðinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Magnús Gunnarsson hefur verið sjóðheitur í síðustu leikjum.
Magnús Gunnarsson hefur verið sjóðheitur í síðustu leikjum.
Stórskyttan Magnús Gunnarsson, leikmaður Keflavíkur, var silkislakur að spila FIFA-tölvuleikinn þegar Vísir heyrði í honum í hádeginu og spurði hann út í stemninguna fyrir kvöldið. Þá mun Keflavík sækja KR heim í oddaleik í Iceland Express-deild karla.

"Við erum að spila þrír félagarnir. Við höfum gert þetta undanfarið og það hefur gefið góða raun. Engin ástæða til að breyta út af vananum," sagði Magnús léttur.

"Það er annars mikil spenna og tilhlökkun fyrir kvöldinu. Þetta eru skemmtilegustu leikirnir og maður er í þessu fyrir þessa leiki. Skiptir engu máli þó svo leikurinn sé í vesturbænum. Við höfum unnið þar áður. Bara fínt að hafa leikinn þar því fleiri áhorfendur komast í húsið."

Magnús segir að ákveðinn hugarfarsbreyting hafi orðið hjá Keflavíkurliðinu er það var lent 2-0 undir gegn KR.

"Þá fórum við að berjast fyrir hvorn annan. Nú eru menn til í að slasa sig fyrir málsstaðinn. Við höfum mikla trú á okkur og það fleytir liðinu langt. Svo hefðum við skammast okkar mikið ef við hefðum tapað 3-0. Rétt marið ÍR og svo tapað 3-0. Þá hefðum við skammast okkar svo mikið að við hefðum líklega ekki æft í allt sumar," sagði Magnús sem hefur alltaf gaman af því að mæta sínum gamla félaga, Fannari Ólafssyni, sem er fyrirliði KR.

"Það er alltaf æðislegt að vinna Fannar. Það hvetur okkur áfram og við þökkum Fannari fyrir það," sagði Magnús kíminn.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×