Fótbolti

Adebayor með tvö í 4-0 sigri Real Madrid á tíu mönnum Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Tíu Tottenham-menn máttu þakka fyrir að tapa bara 4-0 á Santiago Bernabéu í kvöld í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Peter Crouch setti nýtt met í Meistaradeildinni með því að fá tvö gul spjöld á fyrstu fimmtán mínútum leiksins og Real-liðið var eftir það með mikla yfirburði í leiknum. Tottenham á því nánast enga möguleika á að komast áfram í undanúrslit en seinni leikurinn verður á White Hart Lane.

Emmanuel Adebayor reyndist Tottenham-mönnum oft erfiður þegar hann lék með nágrönnum þeirra í Arsenal og ekki gekk Spurs-mönnum betur að ráða við Tógó-maninn í kvöld. Adebayor skoraði tvö skallamörk í leiknum, eitt í sitt hvorum hálfleiknum, og kom Real með því í 2-0 í leiknum.

Tottenham menn hafa upplifað sannkallað Evrópuævintýri á þessu tímabili en eftir þetta stórtap er ljóst að Real Madrid er komið með meira en annan fótinn inn í undanúrslitin.

Emmanuel Adebayor kom Real Madrid í 1-0 á 5. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Mesut Özil. Tottenham varð fyrir miklu áfalli eftir sextán mínútna leik þegar Peter Crouch fékk sitt annað gula spjald fyrir vilta tæklingu á Marcelo en hann hafði fengið fyrra gula spjaldið sitt á níundu mínútu fyrir brot á Sergio Ramos.

Tottenham náði tveimur flottum sóknum með nokkra mínútna millibil um miðjan hálfleikinn en tókst ekki að jafna. Gareth Bale átti fyrst sendingu inn á Rafael van der Vaart sem náði ekki skoti að marki en svo fór Bale síðan alla leið sjálfur en skaut í hliðarnetið.

Emmanuel Adebayor kom Real í 2-0 með frábærum skalla á 57. mínútu eftir flotta fyrirgjöf frá Marcelo. Adebayor átti frábæan skalla skömmu síðar sem Heurelo Gomes náði að verja yfir markið og kom í veg fyrir þrennuna hjá Tógó-manninum.

Gomes kom hinsvegar engum vörnum við þegar Ángel Di María skoraði með frábæru skoti á 72. mínútu eftir sendingu frá Mesut Özil. Cristiano Ronaldo skoraði síðan fjórða markið á 87. mínútu með viðstöðulausu skoti eftir sendingu frá Kaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×