Innlent

Allir gegnumlýstir en engir vindsokkar

Óli Tynes skrifar
Kári Kárason, flugstjóri
Kári Kárason, flugstjóri
Helstu áhættuþættir í flugi á Íslandi eru tengdar hinu opinbera, að mati fráfarandi formanns Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Í fréttabréfi FÍA segir Kári Kárason flugstjóri frá því sem hann kallar miskunnarlausan niðurskurð í flugmálum.

 

Hann hafi leitt til þess að flugvöllum hafi verið lokað og því séu færri lendingarstaðir fyrir loftför í hrakningum. Leiðsöguvitar hafi verið aflagðir og því færri leiðir til að ákvarða stöðu loftfars í blindflugi. Nær engin leið sé að gera blindaðflug að flugvöllum með öryggi.

 

Kári segir að viðhald flugbrauta hafi verið skert og því meiri hætta á að aðskotahlutir valdi skemmdum og jafnvel slysum. Viðhaldi á ljósabúnaði og viðvörunarljósa á hindrunum sé frestað í lengri tíma og því meiri hætta á árekstrum við loftnet og hindranir. Þá nefnir hann að loftför Landhelgisgæslunnar séu jafnvel á undanþágum frá viðhaldsskoðunum og engar varaþyrlur til taks þegar kemur að stórum tímafrekum skoðunum.

 



  Allir gegnumlýstir



Kári bendir á að hundruðum milljóna króna sé veitt í síaukna flugvernd á Keflavíkurflugvelli. Þar séu ráðnir fleiri öryggisverðir og fjárfest í nýjum gegnumlýsingarbúnaði fyrir hundruð milljóna króna á næstu árum. Til samanburðar getur hann þess að vesæll vindpoki hafi verið tekinn niður við flugbraut númer 11 sem sé þekkt fyrir misvinda eftir lengd sinni.

Kári segir að flugvernd sé vissulega góðra gjalda verð. Almennt flugöryggi megi þó ekki líða fyrir ofuráherslu á hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×