Enski boltinn

Verður Rooney dæmdur í bann fyrir munnsöfnuð?

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Wayne Rooney fagnar þriðja markinu í gær.
Wayne Rooney fagnar þriðja markinu í gær. Nordic Photos/Getty Images
Wayne Rooney gæti verið á leiðinni í leikbann því enska knattspyrnusambandið mun taka fyrir á morgun hvort að Rooney eigi skilið að fara í bann fyrir munnsöfnuð sem hann lét dynja yfir myndavél eftir að hann skoraði þrennu gegn West Ham í gær. Manchester United vann leikinn 4-2 eftir að hafa lent tveimur mörkum undir.

Framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandins, Sir Trevor Booking, hefur staðfest að málið verði tekið fyrir hjá aganefnd enska knattspyrnusambandsins á morgun.

„Það verður tekin ákvörðun á morgun. Það kom á óvart, að skora þrennu og bregðast svo svona við. Þetta er eitthvað sem við verðum að líta á,“ sagði Brooking en Rooney hefur nú þegar beðist afsökunar á atvikinu.

„Ég vil biðjast afsökunar á hegðun minni í fögnuðinum, sérstaklega til foreldra eða barna sem voru að horfa á leikinn,“ sagði í yfirlýsingu Rooney sem United sendir frá sér í gær. „Tilfinningarnar voru miklar og þetta gerðist í hita leiksins. Orð mín voru ekki beind að neinum sérstökum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×