Innlent

Benzincafé lokað af lögreglunni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði skemmtistaðnum Benzincafé á Grensásvegi í nótt en þar hafði verið hleypt inn ungmennum sem ekki höfðu aldur til að vera á vínveitingastað. Þar að auki höfðu dyraverðir staðarins ekki tilskilin réttindi.

Þrír gistu fangageymslur lögreglunnar, einn bað um gistingu vegna ölvunar, annar var tekinn fyrir vörslu fíkniefna en sá þriðji var tekinn með hníf á veitingastað. Að öðru leyti var nóttin róleg á höfuðborgarsvæðinu.

Í Vestmannaeyjum þurfti lögreglan að hafa afskipti af slagsmálum á veitingastað, þar sem þrír aðilar veittust að fólki af erlendum uppruna. Enginn gisti þó fangageymslur.

Einn gisti fangageymslur á Suðurnesjum vegna ölvunar á almannafæri en þar var nóttin róleg þrátt fyrir töluvert næturlíf.

Á Akureyri gekk nóttin ágætlega og að sögn lögreglu tókst að leysa öll mál sem þar komu upp með þægilegum hætti. Almennt var nóttin róleg á landinu þrátt fyrir mikið skemmtanahald og var lögreglan sammála um að landsmenn hefðu upp til hópa hagað sér nokkuð vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×