Körfubolti

Birna fyrst til að taka þátt í tíu úrslitaeinvígum um titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Valgarðsdóttir.
Birna Valgarðsdóttir. Mynd/Stefán
Birna Valgarðsdóttir fyrirliði Keflavíkurliðsins í Iceland Express deild kvenna í körfubolta verður í eldlínuni í dag í fyrsta leik úrslitaeinvígisins á móti Njarðvík. Birna brýtur þá blað í sögu úrslitakeppni kvenna með því að verða fyrsti leikmaðurinn sem nær því að taka þátt í tíu úrslitaeinvígum um titilinn.

Birna átti áður metið með fimm öðrum leikmönnum, Önnu Maríu Sveinssdóttur, Erlu Þorsteinsdóttur, Guðbjörgu Norðfjörð, Helgu Þorvaldsdóttur og Kristínu Björk Jónsdóttur, en Birna er að taka þátt í sínum fyrstu lokaúrslitum frá árinu 2008.

Birna var fyrst með í lokaúrslitum vorið 1999 þegar Keflavík tapaði 0-3 á móti KR en fyrsti Íslandsmeistaratitilinn kom árið eftir þegar Keflavík vann 3-2 sigur á KR eftir að hafa unnið oddaleik í KR-húsinu.

Birna hefur alls fimm sinnum orðið Íslandsmeistari en hún vann titilinn 2000, 2003, 2004, 2005 og 2008. Birna á möguleika á að lyfta bikarnum í annað sinn sem fyrirliði en hún var einnig fyrirliði Keflavíkurliðsins sem vann Íslandsmeistartitilinn 2005.

Flest úrslitaeinvígi í úrslitkeppni kvenna 1993-2010:9 - Anna María Sveinsdóttir

9 - Birna Valgarðsdóttir (með 2011, tíunda skiptið)

9 - Erla Þorsteinsdóttir

9 - Guðbjörg Norðfjörð

9 - Helga Þorvaldsdóttir

9 - Kristín Björk Jónsdóttir

8 - Hanna Björg Kjartansdóttir

8 - Marín Rós Karlsdóttir (með 2011, níunda skiptið)

7 - Erla Reynisdóttir

7 - Hildur Sigurðardóttir

7 - Kristín Blöndal

7 - Svava Ósk Stefánsdóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×