Innlent

Færist í vöxt að fólk hræðist að bera vitni

Það færist í vöxt að fólk hræðist að bera vitni í sakamálum af ótta við hótanir ofbeldismanna. Hæstiréttur sýknaði í gær mann af ákærum um alvarlega líkamsárás eftir að meint fórnarlamb hans neitaði að bera vitni.

Í janúar 2009 var ráðist á mann á heimili hans í Mosfellsbæ. Hann var lúbarinn með hnúajárni þannig að hann nef- og kinnbeinsbrotnaði auk þess sem hann missti fjórar tennur og hlaut djúpa skurði.

Þegar réttað var í málinu neitaði fórnarlambið að bera vitni. Það kom ekki að sök því héraðsdómur dæmdi árásarmanninn engu að síður í tveggja og hálfs árs fangelsi. Hæstréttur sýknaði hins vegar árásarmanninn í gær, fyrst og fremst á þeirri forsendu að ekki lægi fyrir vitnisburður fórnarlambins um málsatvik.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mátti fórnarlambið í þessu máli sæta ítrekuðum hótunum, þekktra ofbeldismanna, um að hann og fjölskylda hans myndu hafa verra af ef hann myndi bera vitni gegn árásarmanni sínum.

Fórnarlambið lét undan og því fór sem fór.

Lögreglan segir að það sé ekki nýtt og það færist í vöxt að vitnum og aðstandendum sé hótað.

„Jájá, þeim málum hefur fjölgað," segir Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri

Jón segir að hótanir af þessu tagi haldist oft í hendur við skipulagða glæpastarfsemi. Fólki sé hótað og ógnað og reynt sé að torvalda málum fyrir dómstólum.

Hann ítrekar hins vegar að lögreglan búi yfir úrræðum til að vernda þá sem fyrir hótunum verða. Og á að þau úrræði séu árangursrík.

„Við vitum um miklu fleiri mál þar sem hótendur hafa látið af háttsemi sinni frekar en haldið áfram," segir Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×