Innlent

Eplakortin áfram til sölu

Viðskiptavinir Eplakorta geta áfram keypt kort sem veita þeim aðgang að iTunes þrátt fyrir kröfu Apple Inc. um að síðu Eplakorta verði lokað.

Ástæða fyrir lokuninni er sala á iTunes kortum, notkun á grafík og vörumerkjum í eigu Apple.

Í bréfi sem Eplakort hafa sent viðskiptavinum sínum segir að fyrirtækið starfi áfram í eilítið breyttri mynd.

„Við höfum ráðfært okkur við lögfræðinga sem fullyrða að við getum haldið áfram starfsemi, svo lengi sem við notum ekki vörumerki eða efni frá Apple, Inc. Þess vegna sjáum við ekkert því til fyrirstöðu að flytja síðuna til og opna aftur á nýjum vefþjóni. Við erum nú að vinna í þeim málum. Ef þú vilt kaupa kort í millitíðinni þá er það nú hægt á vefslóðinni www.eplakort.com/kaupa á sama hraða og áður. Þetta mál hefur engin áhrif á virkni korta sem hafa verið keypt eða verða keypt í framtíðinni á síðunni," segir í bréfinu.

Þá kemur þar fram að „...upplýsingar úr íslenskum fjölmiðlum benda til þess að undirrótin að þessari aðgerð sé komin frá íslenskum hagsmunaaðilum. Við sem stöndum að baki þessari þjónustu á Eplakort.com erum Íslendingar og því finnst okkur það súrt í broti að landar okkar skuli ráðast gegn okkur til að beina þessum viðskiptum til erlendra aðila."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×