Innlent

Geislavirkni í grunnvatninu við Fukushima

Geislavirkni hefur nú mælst yfir hættumörkum í grunnvatni við Fukushima kjarnorkuverið í Japan þar sem enn er barist við að kæla kjarnaofnana sem fóru illa í jarðskjálftanum þann ellefta mars og flóðbylgjunni sem fylgdi á eftir.

Yfirvöld í Japan fullyrða að ólíklegt sé að mengunin berist í vatnsból og þannig í drykkjarvatn en fréttirnar vekja samt sem áður ugg og sýna vel hve langt menn eiga í land með að ná tökum á vandamálinu.

Stjórnendur kjarnorkuversins hafa í auknum mæli óskað eftir utanaðkomandi aðstoð við tilraunirnar til að kæla kjarnaofnana og nú hafa risastórar dælur verið pantaðar frá Bandaríkjunum sem geta dælt vatni á ofnana í meira magni en nú er gert. Þær koma þó ekki til landsins fyrr en síðar í þessum mánuði.

Mengunin í grunnvatninu mælist nú tíu þúsund sinnum meiri en eðlilegt er á svæðinu í kringum verið og fannst geislavirkt joð á um fimmtán metra dýpi undir einum kljúfinum að því er talsmaður versins segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×