Viðskipti erlent

Bandaríkjamenn hamstra silfurmyntir

Miklar verðhækkanir á silfri undanfarið ár hafa leitt til þess að almenningur í Bandaríkjunum hamstrar nú silfurmyntir af gerðinni American Silver Eagle. Salan á þessum myntum hefur fjórfaldast á undanförnum þremur árum.

Fjallað er um málið á vefsíðunni e24.no. Þar segir að heimsmarkaðsverð á gulli og silfri sé nú í sögulegu hámarki. Fjárfestar leita í þessa málma, og þó einkum gull, þegar óvissa ríkir í efnahagsmálum heimsins og þegar talin er hætta á að verðbólga hækki mikið.

Í nýrri skýrslu frá Deutsche Bank um silfurmarkaðinn segir að almenningur, eða smásparendur, sjái silfur sem ódýran valkost við gull til að halda uppi verðmæti eigna sinna þegar áhyggjur af verðbólgu og gengi dollarans eru til staðar.

Verð á silfri hefur hækkað um 114% á síðustu 12 mánuðum og stendur nú í 37,5 dollurum á únsuna. Hefur verðið á silfrinu ekki verið hærra í þrjá áratugi eða síðan Hunt-bræðurnir í Texas reyndu að ná einokunarstöðu á markaðinum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×