Erlent

Við tökum ekki aftur við Líbíu

Óli Tynes skrifar
Bandaríkjamenn báru hitann og þungan af fyrstu árásunum á Líbíu sem hófust 19. mars síðastliðinn. Á annaðhundrað stýriflaugum var þá skotið á herstöðvar og margvísleg hernaðarmannvirki á ströndum landsins.

 

Barack Obama gerði ljóst strax í upphafi að Bandaríkin myndu ekki taka að sér að leiða þessa íhlutun áfram. Eftir nokkurra daga þref varð niðurstaðan sú að NATO tók það hlutverk að sér. Þriggja vikna loftárásir undir stjórn bandalagsins þykja hinsvegar ekki hafa skilað þeim árangri sem vonast var til.

 

Því verða nú háværari kröfur um að Bandaríkin beiti sér á nýjan leik. Það verður þó þungur róður. Á fundi utanríkisráðherra NATO ríkja sem hófst í Berlín í dag fékkst Hillary Clinton ekki til að ganga lengra en heita stuðningi.

 

NATO er nokkur vorkunn því það er ekki auðvelt að gera loftárásir í Líbíu. Vígvöllurinn er vægast sagt ruglingslegur. Stríðandi fylkingar sækja og hörfa á víxl og uppreisnarmenn eru oft á ferð í skriðdrekum eða brynvögnum án þess að láta NATO vita. Eins er lögð ofuráhersla á að forðast manntjón meðal óbreyttra borgara. Það er því ekki auðvelt að velja skotmörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×