Viðskipti erlent

Grískir vextir standa í ljósum logum

Efnahagur Grikklands er kominn fram á bjargbrúnina. Fjármálamarkaðir eru að undirbúa sig undir þjóðargjaldþrot landsins. Vextir á grískum ríkiskuldabréfum til styttri tíma standa í ljósum logum.

Þetta kemur fram í frétt á börsen.dk. Þar segir að vextir á grískum ríkisskuldabréfum til tveggja ára hafi hækkað um tæpt prósentustig í dag og standi í tæpum 18%. Það er 16 prósentustigum hærra en þýsku viðmiðunarvextirnir eru.  Vextir á bréfum til þriggja ára hafa hækkað álíka og eru komnir í rúm 19% sem er 17 prósentustigum hærra en þýsku vextirnir.

Jacob Graven aðalhagfræðingur Sydbank segir að vextirnir séu orðnir það háir og fjárhagur Grikklands það slæmur að ekki verði komist hjá þjóðargjaldþroti landsins.

„Þetta er bara orðin spurning um hvenær en ekki hvort Grikkir lýsa yfir þjóðargjaldþroti,“ segir Graven sem bætir því við að björgunarpakki frá ESB upp á 110 milljarða evra hafi ekki bjargað landinu. Hann hafi aðeins verið björgunarkútur sem loftið er að leka úr.

Þá hækkuðu vextir á grískum ríkisskuldabréfum til tíu ára í yfir 13% í dag en það er í fyrsta sinn síðan 1998 sem slíkt gerist.

Mikill orðrómur hefur gengið um fjármálamarkaði í dag um væntanlegt þjóðargjaldþrot Grikkja. Sá orðrómur hófst í kjölfar þess að Wolfgang Schaeuble fjármálaráðherra Þýskalands lét hafa það eftir sér að Grikkir ættu að sækja um endurskipulagningu á skuldum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×