Erlent

Bloggarar Huffington Post vilja 12 milljarða

Huffington Post. Skjáskot af síðunni.
Huffington Post. Skjáskot af síðunni.
Hópur bloggara ætlar í mál við fyrrverandi eiganda vefritsins The Huffington Post. Ástæðan er sú að þeim finnst þeir hafa verið arðrændir.

Bloggararnir undirbúa hópmálssókn gegn Ariönu Huffington, stofnanda vefsíðunnar The Huffington Post í Bandaríkjunum.

Hópurinn hætti að skrifa fyrir síðuna eftir að hún seldi AOL fjölmiðlarisanum síðuna fyrir 315 milljónir dollara, en það gera um 35 milljarðar króna. Sjálfir krefjast þeir 105 milljónir dollara í skaðabætur, eða tæplega 12 milljarða króna.

Talsmaður bloggaranna, Jonathan Tasini, sagði í viðtali við bandaríska fjölmiðla að þó bloggararnir hefðu ekki fengið greitt fyrir störf sín, þá hefði þeim engu að síður verið lofað einhverjum greiðslum í framtíðinni.

Svo hafi síðan verið seld til AOL en Tasini segir verðmæti síðunnar í raun grundvallast á skrifum bloggaranna. Tasini hefur einnig stefnt New York Times á sömu forsendum.

Meðal þeirra sem blogga á Huffington Post er Íslendingurinn Íris Erlingsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×