Erlent

Fimmtugur þingmaður sagði af sér eftir að hafa skoðað klám í vinnunni

Arifinto sést hér skoða klám í vinnunni.
Arifinto sést hér skoða klám í vinnunni. Mynd/AFP
„Ég vona að Guð fyrirgefi mér fyrir mistök mín," sagði indónesíski þingmaðurinn Arifinto, þegar hann sagði af sér þingmennsku á dögunum.

Ástæðan er sú að fjölmiðlar í landinu birtu mynd af honum þar sem hann var að skoða klám í þingsal. Myndin þykir heldur vandræðalega fyrir þingmanninn því hann var einn af þeim sem barðist fyrir því að ströng lög um klám komust í gegnum þingið árið 2008. Einn liður í lögunum kveður á um að varsla kláms sé bönnuð.

Þingmaðurinn er fimmtugur og er fimm barna faðir en þegar hann sagði af sér þingmennsku sagðist hann vilja setja fordæmi með þeirri von að aðrir viðurkenni galla sína.

„Þetta er alfarið mín ákvörðun, enginn reyndi að hafa áhrif á mig," sagði hann.

Í fyrra var ritstjóri indónesíska Playboy dæmdur í tveggja ára fangelsi á grundvelli laganna sem Arifinto barðist fyrir að þingið samþykkti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×