Innlent

Niðurstaðan hefur ekki áhrif á samstarf við AGS

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Franek Rozwadowski segir að niðurstaðan muni ekki hafa áhrif á samstarf Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Franek Rozwadowski segir að niðurstaðan muni ekki hafa áhrif á samstarf Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Franek Rozwadowski, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, segir óvíst hvaða áhrif niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar muni hafa á íslenskt efnahagslíf.

„Á þessum tímapunkti hef ég ekki mikið um það mál að segja vegna þess að við höfum ekki lokið við greiningu á því atriði. Þessi áhrif munu velta á á viðbrögðum fjárfesta og markaðarins," segir Rozwadowski í samtali við Vísi. „Efnahagsáætlun stjórnvalda er á áætlun og núna reiknum við með því að ólíklegt sé að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar stefni í hættu efnahagslegum eða fjármálalegum stöðugleika á Íslandi, vegna þess að efnahagsáætlunin var í réttum farvegi," segir Rozwadowski.

Rozwadowski segir að framundan sé fimmta endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Rætt hafi verið um að ljúka þeirri niðurstöðu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna vegna þess að niðurstöður myndu hafa áhrif á endurskoðunina, til að mynda varðandi afnám gjaldeyrishafta.

Aðspurður ítrekar Rozwadowski fyrrverandi fullyrðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að Icesave samningurinn hafi aldrei verið skilyrði fyrir samning um efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda. „Við höfum lagt á þetta áherslu frá upphafi og þannig er það ennþá," segir Rozwadowski. Hins vegar sé það líka sjónarmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að lausn deilunnar sé mikilvæg fyrir endurreisn íslensk efnahagslífs. Sú lausn þurfi að vera þolanleg fyrir efnahag og fjármál íslenska ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×