Erlent

Veðjaði á hvaða kórónu Kate mun bera - gæti unnið milljónir

Kona ein í Bretlandi gæti orðið þrettán milljónum króna ríkari ákveði Kate Middleton að bera sömu kórónu og Elísabet Englandsdrottning bar í sínu brúðkaupi þegar hún gengur að eiga Vilhjálm krónprins á föstudaginn kemur. Veðmálafyrirtækið Ladbrokes er nú hætt að taka við veðmálum um hvaða kórónu Kate verður með, eftir að miðaldra kona veðjaði sex þúsund pundum á að Middleton myndi bera kórónuna góðu. Kórónan er 180 ára gömul og var mikið notuð af Viktoríu drottningu og Maríu drottningu auk þess sem móðir Elísabetar bar hana af og til.

Elísabet fékk hana svo lánaða í eigið brúðkaup og það gerði dóttir hennar einnig þegar hún gifti sig árið 1973.

Ladbrokes höfðu gert ráð fyrir því að mestar líkur væru á því að Kate myndi bera sömu kórónu og Díana prinsessa bar þegar hún giftist Karli Bretaprinsi en eftir að konan ákvað að leggja svo stóra upphæð á gömlu kórónuna runnu tvær grímur á veðbankamennina. Þeir óttast að hún hafi einhverjar innherjaupplýsingar og því var henni í fyrstu neitað um veðmálið. Hún fór þá í annað útibú þar sem hún veðjaði og fékk líkurnar 12 á móti einum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×