Fótbolti

Evra ætlar ekki að vanmeta Schalke

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Evra í leik með United á tímabilinu.
Evra í leik með United á tímabilinu. Nordic Photos / Getty Images
Patrice Evra, leikmaður Manchester United, segir að félagið ætli að læra af leikjunum sem liðið lék gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu í fyrra.

Bayern sló þá United úr leik í fjórðungsúrslitum keppninnar. Nú er United komið í undanúrslitin og mætir öðru þýsku liði, Schalke.

„Við munum allir hvað gerðist síðast þegar við mættum þýsku liði,“ sagði Evra við enska fjölmiðla. „Maður verður að bera virðingu fyrir öllum liðum og það munum við gera. Ég ber mikla virðingu fyrir Schalke.“

„Þegar ég var hjá Monaco átti enginn von á því að við myndum komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Við mættum Real Madrid í fjórðungsúrslitum og Chelsea í undanúrslitum. En við unnum bæði liðin,“ sagði Evra sem var á mála hjá Monaco árið 2004 er liðið tapaði fyrir Porto í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

„Schalke er í undanúrslitunum af því að þeir vildu ólmir komast þangað. Þeir vilja vinna þennan titil. Fyrir því verðum við að bera virðingu og við vitum líka að þeir eru vel studdir af áhorfendum sínum. Það verður mögnuð stemning á leiknum í Þýskalandi.“

„Við viljum líka ná langt og enda tímabilið á mjög góðum nótum,“ bætti hann við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×