Fótbolti

Guardiola: Real sigurstranglegri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pep Guardiola, stjóri Barcelona.
Pep Guardiola, stjóri Barcelona. Nordic Photos / AFP
Pep Guardiola, stjóri Barcelona, telur að Real Madrid sé sigurstranglegri aðilinn í rimmu liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Liðin eigast við í Madríd á miðvikudagskvöldið í fyrri viðureign liðanna í rimmunni.

Barcelona er með átta stiga forystu á Real í spænsku úrvalsdeildinni en Madrídingar höfðu betur í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar gegn Barcelona fyrr í vikunni.

Börsungar unnu 2-0 sigur á Osasuna um helgina og Real Madrid vann sigur á Valencia, 6-3, á sama tíma.

Guardiola sagði frammistöðu sinna manna í leiknum hafa verið slaka þrátt fyrir sigurinn en hann gerði sjö breytingar á byrjunarliðinu.

„Við fengum þrjá daga til að jafna okkur eftir 120 mínútna leik í bikarnum og var planið að hvíla þá sem spila venjulega þar sem að Meistaradeildin er handan við hornið," sagði Guardiola. „Við þurfum því fyrst og fremst að hugsa um úrslitin í þessum leik."

Guardiola segir að Madrídingar séu nú sigurstranglegri eftir sigurinn í bikarúrslitunum en að Börsungar munu halda sínu striki.

„Þeir hafa unnið sér það inn að teljast sigurstranglegri aðilinn. En við höfum trú á okkur og munum halda áfram að leita upp færi í stað þess að leggja ofurkapp á að verja það sem við höfum. Við þurfum þó að fara varlega í leiknum á Bernabeu svo að við verðum ekki undir í baráttunni. Við ætlum að reyna að skora og ná góðum úrslitum í leiknum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×