Erlent

Harmleikur í Frakklandi: Þrjú lík og fótleggur í bakgarðinum

Fjölskylduföðurins er leitað eftir að líkin fundust í bakgarðinum
Fjölskylduföðurins er leitað eftir að líkin fundust í bakgarðinum Samsett mynd/ Skynews.com
Franska lögreglan leitar fjölskylduföðurs eftir að þrjú lík og fótleggur, sem talin eru vera af eiginkonu hans og börnum, fundust í bakgarði fjölskyldunnar.

Lögreglumenn sem rannsakað hafa hvarf fjölskyldunnar frá því fyrr í mánuðnum leita nú logandi ljósi að hinum fimmtuga fjölskylduföður, eftir að líkin fundust í bakgarði á heimili þeirra í bænum Nantes í Frakklandi. Kreditkort mannsins var notað í bænum Fréjus, nærri St Tropez í gær.

Sky News fréttastofan segir að líklega séu líkin af eiginkonu hans, tuttugu og eins árs gömlum syni, átján ára syni og sextán ára gamalli dóttur þeirra. Talið er að þau hafi verið skotin til bana. Þá fannst einnig fótleggur sem talin er vera af þrettán ára gömlum syni mannsins.

Fjölskyldan hefur ekki sést síðan 5. apríl síðastliðinn en kennari í skóla barnanna segir að skömmu fyrir það hafi faðirinn tilkynnt um skyndilegan brottflutning fjölskyldunnar til Ástralíu vegna vinnu hans.

Faðirinn mun hafa sagst vera leyniþjónustumaður á vegum Bandaríkjamanna og hafi þurft að flýja til Ástralíu vegna vitnaverndar í máli sem hann vann að.

Fjölskyldunni er lýst sem ósköp venjulegri en faðirinn seldi auglýsingar og móðirin var leiðbeinandi í kaþólskum skóla.

Lögreglan leggur nú allt kapp á að hafa uppi á manninum en lík eiginkonunnar og tveggja elstu sonanna fundust undir verönd hússins. Síðar sama dag fannst lík dótturinnar í garðinum, en hún hafði verið grafin með tveimur hundum fjölskyldunnar.

Sjá frétt á vef SkyNews




Fleiri fréttir

Sjá meira


×