Innlent

Nýlistasafnið hefur lokað hluta af umdeildu listasýningunni Koddu

Valur Grettisson skrifar
Ein af hinum umdeildu myndum úr sýningunni Koddu.
Ein af hinum umdeildu myndum úr sýningunni Koddu.
Nýlistasafnið hefur lokað hluta af listasýningunni Koddu samkvæmt Ásmundi Ásmundssyni, sem er einn af þremur sýningastjórum sýningarinnar ásamt Hannesi Lárussyni og Tinnu Grétarsdóttur.

Ástæðan fyrir lokun sýningarinnar eru ásakanir forsvarsmanna bókaútgáfunnar Crymogeu um að bók, sem er þar til sýnis, og aðstandendur sýningarinnar hafa átti við, sé brot á sæmdarrétti höfundarins. Bókin sem um ræðir er Flora Islandica með myndskreytingum Eggerts Péturssonar listmálara.

Höfundar verksins í Nýlistasafninu sem þeir kalla Fallegasta bók í heimi, keyptu bókina og skreyttu hana með mat, súkkulaði, majonesi, malakoff og þessháttar. Bókin er hluti af stærri innsetningu sýningarinnar.

„Samkvæmt stjórn Nýlistasafnsins verður lokað yfir páskana en sýningin var auglýst opin yfir hátíðarnar og átti að vera opin í dag," segir Ásmundur um lokun Nýlistasafnsins. Fleiri verk eru umdeild á sýningunni. Meðal annars samsett mynd sem sýnir Bjarna Ármannsson og friðarsúluna í bakgrunni.

Höfundur ljósmyndarinnar af friðarsúlunni er sagður íhuga að krefjast lögbanns á sýningu myndarinnar samkvæmt kvöldfréttum RÚV.

Það er óhætt að segja að sýningin sé sú umdeildasta í áraraðir en henni var meðal annars úthýst úr listasafni í Hveragerði á síðasta ári vegna umdeildra efnistaka. Þá var bókin um blómin, Flora Islandica, einnig bitbeinið auk annarra verka sem og texta í sýningarskrá.

„Það er talað um sæmdarbrot varðandi bókina. Við teljum að þarna sé verið að brjóta gróflega á okkur," segir Ásmundur en forlagið hótar beinlínis málsókn vegna notkunar listamannsins á bókinni.

Því hefur Nýlistasafnið lofað að loka sýningunni.

„Það er ekki möguleiki af okkar hálfu að taka verkið út," segir Ásmundur spurður hvort það væri mögulegt að hætta að hafa bókina til sýnis. Hann bætir svo við:

„Þetta er alvarleg atlaga að tjáningarfrelsinu og til skammar ef Nýlistasafnið beygir sig undir frekjutilburði bókaútgefandans."

En Ásmundur hefur ekki miklar áhyggjur.

„Ég hef ekki áhyggjur af þessu máli. Við erum í 100 prósent rétti og listin er okkar megin," segir Ásmundur og bætir við:

„Ég er ekki viss um að fólk vilji búa í samfélagi sem brýtur á tjáningarfrelsinu með þessum hætti."

Sýning hópsins er þó ekki algjörlega lokuð því stór hluti hennar fer fram í Hugmyndahúsi háskólanna. Því getur fólk enn notið verka hópsins sem Ásmundur lýsir sem gagnrýnni og ágengri listasýningu.

Spurður hvað taki við, úthýsi Nýlistasafnið einnig sýningunni líkt og gerðist í Hveragerði, svarar Ásmundur því til að það hafi ekki verið rætt innan hópsins. Því er óljóst hver örlög verkanna verða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×