Fótbolti

Margrét Lára tryggði Kristianstad jafntefli í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. Mynd/Ossi Ahola
Margrét Lára Viðarsdóttir tryggði Kristianstad 1-1 jafntefli á útivelli á móti Örebro í sænsku kvennadeildinni í dag og hefur þar með skorað fimm mörk í fyrstu fimm umferðunum á leiktíðinni.

Margrét Lára skoraði jöfnunarmarkið á 85. mínútu eftir sendingu frá Elinu Nilsen en Elin Magnusson hafði komið Örebro í 1-0 á 60. mínútu.

Margrét Lára og Sif Atladóttir spiluðu allan leikinn með Kristianstad en Guðný Björk Óðinsdóttir kom síðan inn á sem varamaður í hálfleik fyrir Erlu Steinu Arnardóttur. Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar lið Kristianstad sem hefur náð í 10 af 15 mögulegum stigum í fyrstu fimm leikjum sínum.

Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir spilaði allan leikinn fyrir Örebro, María Björg Ágústsdóttir sat á bekknum og Edda Garðarsdóttir er nefbrotin og gat ekki spilað af þeim sökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×