Engin ákvörðun hefur enn verið tekin varðandi það hvort hvítabjörninn sem sást á Hornströndum í morgun verði skotinn eða hvort reynt verði að ná honum lifandi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á leiðinni í loftið og eru sérsveitarmenn frá lögreglunni með í för.
Kristinn Már Ársælsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar segir að fyrsta mál á dagskrá sé að koma upplýsingum til þeirra ferðamanna sem eru á svæðinu að hafa varann á sér. Síðan verði málið skoðað í samstarfi við lögregluna á vestfjörðum en engin ákvörðun hefur enn verið tekin með framhaldið.
Hann bendir þó á að samkvæmt sérfræðingaskýrslu sem gerð var fyrir nokkru hafi almenna niðurstaðan verið þá leið að fella alla hvítabirni sem hingað ganga á land.
Haft hefur verið samband við þá ferðamenn sem vitað er um á staðnum en þeir sem vita um ferðir fólks á svæðinu eru beðnir um að hafa samband við þá og greina frá stöðu mála en einnig láta lögregluna á Ísafirði vita af ferðum fólks.

