Innlent

Þreyttur á að börnum sé beitt í kjarabaráttu

Velferðarráðherra segist vera þreyttur á því að stjórnmálamenn noti börn til að berjast fyrir hagsmunum og kjarabaráttu einstakra starfsstétta. Heit umræða skapaðist um tannlæknaþjónustu fyrir börn efnaminni foreldra á Alþingi í dag.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Guðbjart Hannesson, velferðarráðherra, um tannvernd barna í óundirbúnum fyrirspurnatíma ráðherra á Alþingi í morgun. Þorgerður Katrín kvaðst ekki vera sannfærð um að bjóða börnum efnaminni foreldra ókeypis tannlæknaþjónustu í Háskóla Íslands væri rétta leiðin til að tryggja tannheilsu barna. Sú leið hentaði foreldrum á landsbyggðinni afar illa. Frekar ætti að greiða sjálfstætt starfandi tannlæknum úr sjúkratryggingum fyrir þessa þjónustu.

„Er ráðherra sáttur við þetta verklag? Fyrir utan þá hættu sem bíður upp á einelti í skólum að taka barn úr skóla til dæmis á Ísafirði eða Húsavík og senda það suður af því það hefur ekki efni á því að leita til tannlæknis á heimasvæði," sagði Þorgerður Katrín.

Guðbjartur Hannesson gaf hins vegar lítið fyrir þessi rök Þorgerðar Katrínar. „Ég er orðinn þreyttur á þegar að menn noti börn endalaust til að berjast fyrir hagsmunum og kjarabaráttu einstakra starfsstétta. Ég var skólastjóri í 26 ár og það þarf ekkert að vera að draga það fram að þetta sé eineltisspursmál að senda börn einhvers staðar í tannlæknaþjónustu utan heimabyggðar. Það er bara verið að búa til storm í vatnsglasi. Það þori ég að segja sem uppeldismenntaður skólastjóri sem veit hvað er verið að tala um."

Guðbjartur sagðist hins vegar frekar vilja færa þjónustuna út á land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×