Innlent

Vilja fækka í stjórn Byggðastofnunar

Stjórnarmönnum í Byggðastofnun verður fækkað úr sjö í fimm nái frumvarp þess efnis fram að ganga. Frumvarpið var afgreitt til iðnaðarnefndar eftir aðra umræðu á Alþingi í dag en stjórnarandstaðan greiddi atkvæði gegn því að frumvarpið yrði afgreitt í nefnd. Heimildir fréttastofu herma að til standi að skipa héreftir í stjórnina eingöngu á faglegum grundvelli en hingað til hafa stjórnmálaflokkarnir á þingi tilnefnt sína fulltrúa í stjórnina.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að iðnaðarráðherra skipi stjórnina eftir sem áður, en með hliðsjón af breyttu fjármálaumhverfi og tilkomu Bankasýslu ríkisins kemur til greina að fela valnefnd Bankasýslu ríkisins að tilnefna tvo stjórnarmenn.

Minnihlutinn í iðnaðarnefnd gagnrýnir hinsvegar þau vinnubrögð að leggja fram frumvarp um breytingar á stjórn á sama tíma og sérstök nefnd hafi  það hlutverk að endurskoða lánahluta stofnunarinnar. „Ætla má að í þeirri vinnu komi fram upplýsingar er kunna að hafa áhrif á skipan stjórnar. Þá er á sama tíma unnið að endurskoðun á stuðningskerfi atvinnulífsins. Því telur minni hlutinn frumvarpið ótímabært."

Í umsögn fjármálaráðuneytisins segir að breytingin muni leiða til þess að kostnaður við yfirstjórn stofnunarinnar geti lækkað um rúmlega tvær milljónir króna á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×