Innlent

Innanríkisráðherra skipar fagráð um kynferðisbrot

Guðrún Ögmundsdóttir verður formaður ráðsins.
Guðrún Ögmundsdóttir verður formaður ráðsins.
Innanríkisráðherra hefur sett á stofn þriggja manna fagráð sem fjalla skal um ásakanir vegna ofbeldisbrota og kynferðisbrota einkanlega hjá trúfélögum samkvæmt tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.

Fagráðið skal vera innanríkisráðherra til ráðgjafar í málum sem þessum og leiðbeina um leiðir til úrbóta. Þá skal það móta reglur fyrir starfsemina sem yrði grundvöllur að tillögum að breytingum á lögum um skráð trúfélög og eftir atvikum stofnanir og félagasamtök sem njóta opinbers stuðnings að einhverju eða öllu leyti og miði að því að koma kærumálum í markvissari farveg.

Fagráðið skal einnig vera innanríkisráðherra til ráðgjafar um framkvæmd laga um skráð trúfélög og þá einkum hvað varðar aðstæður sem greini um í lögum þar sem fjallað er um niðurfellingu skráningar trúfélaga. Þar segir að séu skilyrði til skráningar ekki lengur fyrir hendi eða ef trúfélag vanrækir skyldur sínar samkvæmt lögum skuli ráðuneytið veita trúfélaginu skriflega viðvörun og veita frest til úrbóta. Sé ekki bætt úr getur ráðherra ákveðið að fella skráninguna úr gildi.

Starfshópinn skipa Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vistheimila sem er formaður, Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu, og Björgvin Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Með fagráðinu starfar María Rún Bjarnadóttir, sérfræðingur á sviði mannréttindamála í innanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×